149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:52]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka andsvarið. Í fyrsta lagi held ég að það sé ágætt að það komi fram að samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef hefur þessum fyrirvörum Noregs ekki verið svarað af hálfu Evrópusambandsins 14 til 15 mánuðum eftir að þeir voru settir fram. Noregur hefur sent bréf eða erindi og óskað eftir svörum og ekki fengið svör við því eftir því sem ég best veit.

Hv. þingmaður nefnir gríðarlega stórt mál sem ég hef reyndar ekki mikið komið inn á í mínum ræðum, en það er sá vafi, sá verulegi vafi, sem þeir félagar, tvímenningarnir sem stundum eru nefndir hér, telja að sé fyrir hendi varðandi stjórnarskrána. Það er ekki ásættanlegt að það sé einhver vafi varðandi það. Þess vegna held ég að rétt sé að við fáum þá til þess að rýna fyrirvarann sem kallaður er, sem ég held reyndar að skipti í sjálfu sér ekki stóru máli varðandi innleiðinguna því að við innleiðum þetta hvort sem er. Fyrirvararnir eru meira til að hjálpa okkur hér heima fyrir, eða alla vega stjórnarliðum, til að kyngja málinu.

Við þurfum líka að fá þessa tvo ágætu herramenn til þess að rýna og fara yfir þær skuldbindingar sem við tökum á okkur ef við innleiðum orkupakka fjögur. Ég geri mér engar grillur um það að Evrópusambandið muni samþykkja — eða að það verði samþykkt af hinum EFTA-ríkjunum ef þau ákveða að innleiða orkupakka fjögur án undanþágu — að við fáum undanþágur frekar en frá orkupakka þrjú. Það þarf að rýna nú þegar hvaða áhrif þessi pakki nr. fjögur mun hafa á stjórnarskrá okkar, hvort þar eru enn frekari óbein áhrif á skipulag, rekstur eða nýtingu orkuauðlinda okkar. Ekki er hægt að stinga höfðinu í sandinn varðandi þetta, hv. þingmaður, og láta eins og þetta sé ekkert mál.