149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:56]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að mótmæla neinu af því sem hv. þingmaður sagði í sínu stutta andsvari. Við erum að innleiða þessi lög Evrópusambandsins sem voru samþykkt í sameiginlegu EES-nefndinni í maí 2017, með einhverjum mjög, myndi ég segja, óskýrum aðferðum sem Eftirlitsstofnun ESA á að geta beitt, reyndar alltaf með því að spyrja ACER-stofnunina hvernig ljúka eigi málum.

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi hitt naglann á höfuðið þegar hann sagði, í fyrra andsvari sínu, að ekkert annað væri í stöðunni en að skoða þetta mál miklu betur og rýna það í samræmi við þær upplýsingar sem við höfum nú þegar uppi varðandi orkupakka fjögur, svo að dæmi sé tekið, þannig að allur vafi sé tekinn af varðandi frekara framsal valds.