149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:57]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ræðuna. Mér verður nokkuð tíðrætt um frétt Bændablaðsins frá 19. apríl sl. þar sem fjallað er um kolsvarta skýrslu um orkupakka fjögur. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi hugmynd um það þar sem norsk yfirvöld hafa ekki ákvörðunarvald um hvert orkan þeirra verður seld og hvort hv. þingmaður telji ekki að það sama muni eiga við hér á landi líka.

Mig langar svolítið að bæta við vangaveltum sem ég kom aðeins inn á áðan, þessu með störfin og hvernig við reynum að viðhalda störfum um allt land á Íslandi. Í Noregi er því velt upp að störfum muni fækka, að þar verði störf hreinlega í hættu og þá sérstaklega á landsbyggðinni. Því vil ég inna hv. þingmann eftir því hvort hann telji ekki að það sama gæti átt við hér á landi.