149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:01]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svarið. Mér finnst þetta áhugaverð pæling og langar aðeins að fara lengra með hana. Norska alþýðusambandið, sem líkt og okkar íslenska ASÍ, er á móti orkupakka þrjú þar í landi sem búið er að samþykkja. Sú umræða hefur farið fram þar að hreinlega sé kominn tími til að segja upp EES-samningnum. Ég er ekki endilega að leggja til að við segjum upp EES-samningnum en þeir telja það réttast vegna þess að undirboð hafa átt sér stað, sérstaklega á norskum vinnumarkaði. Þegar þetta er sett saman við það samhengi að störf eru að tapast frá Noregi, þá sérstaklega á landsbyggðinni, finnst mér áhugaverð hugsun hvort þetta sé það (Forseti hringir.) sem við stöndum frammi fyrir.