149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:04]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir ræðu hans. Ég velti fyrir mér og spyr hv. þingmann aðallega um það sem hann nefndi um fjórða orkupakkann og áhrif þess þriðja sem við fjöllum um núna. Fram kemur í reglugerð 713, sem við höfum í þeirri þingsályktunartillögu sem liggur fyrir, að ætlunin er að innleiða hana og að lög standi ekki í vegi fyrir ákvæðum þeirrar reglugerðar.

Nokkur verkefni samevrópsku orkumálastofnunarinnar, ACER, eru þau m.a. samkvæmt reglugerð 713/2009, sem við ætlum að innleiða, að stofnunin hefur málsaðild að dómsmálum í aðildarríkjunum. Stofnunin er sett til að bæta gloppur í löggjöfinni á vettvangi bandalagsins. Stofnunin á að stuðla að skilvirkri starfsemi innri markaða fyrir raforku. Hún á að tryggja samræmi í eftirlitsstarfsemi einstakra aðildarríkja. Eftirlitsstarfsemi einstakra aðildarríkja er hérlendis í höndum Orkustofnunar, skilst mér.

Stofnunin á líka að stuðla að framkvæmd viðmiðunarreglna fyrir samevrópsk orkunet og viðleitni til að auka orkuöryggi, stofnunin á einnig að aðstoða eftirlitsaðila á orkumarkaði við beitingu valdheimilda innan ESB. Af þessu tilefni spyr ég hv. þingmann, af því að hann er fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra: Mun þessi stofnun, ACER, eða umboðsaðilar hennar á vettvangi EES-samningsins, ESA — mun koma til þeirra heimilda sem ég nefndi áðan við innleiðingu þessarar gerðar?