149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:06]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og ég hef skilið þetta mál eins og það liggur fyrir miðað við að við erum í rauninni að fara að innleiða þessar reglugerðir 713 og 714 án þess að hafa eiginlega fyrirvara frá þeim, þá get ég ekki svarað þessu öðruvísi en já. Minn skilningur er sá að þetta gildi hér enda, ef ég man rétt, kemur fram í einu af þeim frumvörpum sem er fyrir atvinnuveganefnd að verið er að færa Orkustofnun ákveðið sektar- eða aukasektarvald eða eitthvað slíkt, ég man ekki nákvæmlega hvernig það er orðað.

Í það minnsta er verið að auka heimildina til að beita fyrirtækin einhvers konar viðurlögum. Það skref sem við erum að taka hér er því skref í þá átt að hleypa þessari ACER stofnun beint eða óbeint inn í þessar framkvæmdir eða inn í eftirfylgni á þessum reglum á Íslandi. Nú geta menn komið hingað og sagt að þetta sé ekki rétt vegna þess að það er milliliður sem heitir Orkustofnun eða eftirlitsstofnun ESA þarna sem hefur eftirlit með því að við fylgjum þessu eftir. En þá er það alveg ljóst að þegar ágreiningur er uppi um hvort farið sé eftir reglum og hann rekinn fyrir Eftirlitsstofnuninni er það ACER sem gefur tóninn. Ef ég man rétt stendur í fimmta kafla þessarar samþykktar að menn skuli ná sameiginlegri niðurstöðu um álitaefnið.

Aðild að dómsmálum er vissulega áhugaverð því að við getum velt fyrir okkur að einhver einstaklingur eða fyrirtæki fari með íslenska ríkið fyrir EFTA-dómstólinn, að þá virðist sem svo að ACER sé orðinn beinn eða óbeinn aðili að því dómsmáli ef við innleiðum þá gerð sem hér er.