149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:08]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég velti þessu fyrir mér varðandi aðkomu ACER eða ESA í tilviki EFTA-ríkjanna, hver hún er í rauninni. Við erum búin að ræða það og ég ætla ekki að eyða tíma í það hvers lags áhrif ACER getur haft á ákvarðanir ESA. Ég ætla ekki að fara út í það hér, það liggur alveg fyrir í lögfræðiálitum í þessu máli. Ég ætla ekki að eyða tíma í það.

Ég spyr bara sjálfan mig að því og hv. þingmann: Hvernig sér hann aðkomu þessara stofnana, ESA, eða eftir atvikum ACER, að þessu, eins og t.d. að tryggja samræmi í eftirlitsstarfsemi einstakra aðildarríkja? Hvernig ætla þessar stofnanir að tryggja þetta hér á landi, ef þetta verður innleitt, eða er þetta einungis tengt þeim löndum sem eru tengd með raforkuvirkjum yfir landamæri? Til hvers er þetta þá í reglugerðinni ef þetta tengist einungis yfir landamæri.