149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:09]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg ljóst og kemur fram í skýringunum á því hvað ACER á að gera og í rauninni hvað ESA gerir. Þær stofnanir hafa eftirlit með því að reglum, sem samþykkt hefur verið að taka upp í EES-samninginn, þ.e. Eftirlitsstofnun ESA, þær hafa eftirlit með því að EFTA-ríkin framfylgi þeim reglum sem voru teknar upp og ACER hefur eftirlit með því hinum megin frá.

Saman hafa þessar tvær stofnanir sameiginlegt eftirlit með því að þetta allt farið fram eftir settum reglum. Ef einhver ágreiningur er á milli þessara aðila höfum við séð að það er ACER sem setur og gefur tóninn fyrir hvernig á að leysa það. Ég held eins og við höfum séð þróunina vera á sameiginlegum markaði Evrópusambandsins og innan EES-svæðisins, þá munu eftirlitsstofnanirnar ekki láta sitt eftir liggja til að tryggja að farið verði að fullu eftir samningnum. Og við erum að fara að innleiða þessar gerðir með húð og hári. Við erum ekkert að fá neinar alvöruundanþágur nema frá einhverju sem skiptir engu máli, þ.e. gasinu.