149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:17]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Virðulegi og að því er virðist athuguli forseti. Hv. þingmaður kemur inn á mál sem hefur reyndar ekki verið mikið rætt í þessari umræðu. Ég hugðist gera að umtalsefni og hyggst reyndar enn, væntanlega síðar í kvöld, pólitíkina á bak við þetta mál eins og hún hefur spilast. Mér þykir það nefnilega einstaklega óheppilegt að til að mynda forystumenn í ríkisstjórnarflokkunum öllum þremur skuli ekki fylgja pólitík eigin flokka. Það er ekki alltaf þannig, virðulegur forseti, að maður sé að hvetja aðra flokka til að fylgja stuðningsmönnum sínum og sinni stefnu, en það á sannarlega við í þessu tilviki. Í þessu máli vonast ég til þess enn að þingmenn stjórnarliðsins líti til stefnu eigin flokka, til yfirlýsinga eigin formanna á fyrri stigum og framkvæmi í samræmi við það.

En það sem ég vildi spyrja hv. þingmann út í, fyrst hann nefnir þetta, er hvort við kunnum að vera hér að horfa upp á enn eina birtingarmynd þess sem ég hef kallað kerfisræði, að í stað þess að menn fylgi stefnu flokka sinna og síns fólks, fylgi þeir leiðbeiningum, jafnvel tilmælum, frá kerfinu, hvort sem um er að ræða innlent stjórnkerfi eða einhverja anga þess eða erlent í Brussel eða í Osló eða hvar sem kerfið kann að vera að ýta þessum málum áfram, vegna þess að maður skilur ekki alveg hvernig menn koma þessari framgöngu nú varðandi þennan þriðja orkupakka heim og saman við stefnu ríkisstjórnarflokkanna allra og fyrri yfirlýsingar þeirra um þessi mál.