149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:19]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, við erum kannski báðir á þeim slóðum, ég og hv. þingmaður sem ég þakka andsvarið, að hugsa einmitt um stefnu þeirra flokka sem nú mynda ríkisstjórn á Íslandi. Það er engu líkara en að þetta samstarf sem stofnað var til með mjög lágum samnefnara og lágum þröskuldum, það virðist vera eins og það hafi flætt á milli, kjölvatnið hafi flætt á milli, þannig að engin leið er að sjá í sumum málum muninn á Vinstri grænum og Sjálfstæðisflokknum.

Ég hef sagt það hér áður sem dæmi um það hvernig þetta birtist í hinum ólíklegustu myndum, að Sjálfstæðisflokkurinn er allt í einu farinn að standa á móti því að einkaaðilar í heilbrigðiskerfinu geti starfað eðlilega. Á sama hátt er VG, eins og ég sagði áðan, að stuðla beinlínis og vinna að markaðsvæðingu raforkukerfisins. Og hver hefði trúað því, herra forseti?

Ég er einmitt hugsi yfir þessu vegna þess að ég hugsa til þess fólks sem kaus þá flokka í síðustu kosningum og spurningin er: Voru kjósendur Vinstri grænna að kjósa sitt fólk til að markaðsvæða orkukerfið á Íslandi? Ég ætla ekki að trúa því. En það virðist einhvern veginn vera. Til er í dýraríkinu dýrategund sem heitir læmingjar, stökkva hver á eftir öðrum fyrir björg og það er engu líkara en að forystumenn ríkisstjórnarflokkanna séu í einhverri slíkri för, vegna þess að það virðist vera helsta keppikefli þeirra nú um þessar mundir að leggja flokka sína af. Ég er ekki að grenja það sko, ég sé ekki eftir því.

En að þessum (Forseti hringir.) gjörningi gerðum sem við erum nú að reyna að verjast, þá liggur það alveg fyrir, að ég tel, (Forseti hringir.) að pólitískt landslag á Íslandi verður allt öðruvísi. Ég kem kannski nánar inn á það á eftir.