149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:21]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég skal gjarnan viðurkenna að það er heilmikið gott og gagnlegt í öllum stjórnarflokkunum eða sögu þeirra að minnsta kosti. Ég nefni bara sem dæmi áherslu Sjálfstæðismanna á frelsi og sjálfstæði landsins og ákveðin prinsipp réttarríkisins, áherslu Framsóknarmanna á byggðir landsins og auðvitað á sjálfstæði landsins líka. Áherslur Vinstri grænna á umhverfisvernd, þó að ég sé ekki alltaf alveg sammála um hvernig þeir nálgast þau mál, en einnig áherslur Vinstri grænna á mikilvægi sjálfstæðis og að við réðum okkar málum sjálf, Íslendingar. Það er með öðrum orðum, eða var, sterk þjóðleg taug í öllum þessum flokkum. En er ekki bara vandinn sá að þetta ríkisstjórnarsamstarf, í stað þess að leiða fram það besta í öllum flokkunum, dregur fram gallana. Ég ætla ekki að segja það versta, en gallana. Vegna þess að ríkisstjórnin hefur enga sýn, enga stefnu og (Forseti hringir.) afleiðingin er sú að hún lætur kerfið um að stjórna sér.