149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:23]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hygg að þetta sé nokkuð rétt. Þannig vill til að ég var á ferð í Svíþjóð um daginn og var að reyna að útskýra þetta ríkisstjórnarsamstarf fyrir þriðja aðila. Ég lét þess getið í viðtalinu, þetta var náttúrlega kurteisislegt samtal, að í sjálfu sér væri þessi ríkisstjórn ekki svo bölvuð því að hún væri eiginlega ekki að gera neitt, þannig að hún gerði lítið af sér. En með því að segja þetta láðist mér að muna eftir þessu máli hér, vegna þess að með því að gera ekki neitt eða lítið í málinu nema ógagn, þá er ríkisstjórnin, ríkisstjórnarflokkarnir, að gera gríðarlegt ógagn. Það er kannski þess vegna sem fólk, eins og Tómas Ingi Olrich, Ögmundur Jónasson og fleiri málsmetandi menn og konur hafa staðið upp og skilja ekki hvað er að gerast í flokkunum sínum gömlu og skilja ekki á hvaða vegferð þeir eru. Það er enginn (Forseti hringir.) vandi að setja sig í þau spor.