149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:24]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann kom inn á marga gagnlega punkta og ég þóttist geta lesið á milli línanna að hann deilir áhyggjum mínum af því hvert við erum að stefna. Fyrir okkur liggur þessi þriðji orkupakki og í framhaldinu orkupakki fjögur, sem ég gef mér að sé býsna stór og mikill að umfangi miðað við þær upplýsingar sem við höfum fengið, að hann sé um 1.000 blaðsíður.

Við höfum fengið það upplýst hér í dag að sá pakki muni fjalla um orkunýtingu og endurnýjanlega orku og einnig muni vera fjallað um hönnun raforkumarkaðarins sem er býsna flókið fyrirbæri. Ég gef mér að í öllu þessu ætli Evrópa að ná sér í svokallaða kolefnisminnkun, sem hefur áhrif á gas og kol á orkumarkaði og slíka hluti, í skiptum fyrir fljótandi lífeldsneyti í flutningagreinum og fyrir endurnýjanlega orkugjafa til hitunar sem við þekkjum hér á landi.

Ég vil líka leggja áherslu á að þessi tími er passandi og mig langar að spyrja hv. þingmann hvaða skoðun hann hefur einmitt á þessari tímasetningu. Getur það skipt máli að nú sé enn og aftur verið að ræða úrgöngu Breta úr ESB og að allt þurfi þetta að hanga saman, sér í lagi ef ná á þessari kolefnisminnkun og hvernig Bretland getur leikið stórt hlutverk í þeim efnum.