149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:26]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Evrópusambandið virðist að hluta til vera eins og risastór kóngulóarvefur; sá sem lendir í þeim vef á eiginlega enga útgönguleið. Við sjáum það af síðustu fréttum í Bretlandi, þar sem menn virðast ætla að taka upp kosningafyrirkomulagið í Brussel, þ.e. að kosið verði þar til rétt niðurstaða fæst. Nú virðist vera ljóst að endurtaka eigi þjóðaratkvæðagreiðslu vegna þess að úrslit hinnar fyrri hugnuðust ekki menntaelítunni. Það eiga væntanlega að vera einhverjir einangrunarsinnar, jafnvel popúlistar, sem kusu með Brexit. Það hefur kannski verið Landssamband bakarameistara í Bretlandi, þekktir þjóðernispopúlistar, sem hefur kosið með því að Bretland fari úr Evrópusambandinu. Nú stendur það kannski til bóta.

En jú, ég held að þessi tímasetning sé ekki tilviljun. Ég held að það sé heldur ekki tilviljun að svo virðist sem þeir orkupakkar sem við höfum hingað til opnað og tekið inn á heimili okkar, þ.e. sá fyrsti og annar — það er verið að gefa okkur í teskeiðum það sem Evrópusambandið vill að við kyngjum að lokum. Í öðrum pakkanum vorum við að skipta fyrirtækjunum okkar upp í framleiðslu og dreifingu. Nú er verið að ganga frá því og enn fremur á að setja okkur undir yfirþjóðlega stofnun sem hefur gríðarlega víðtæk völd eftir því regluverki sem hefur verið opnað hér. Síðan, eins og hv. þingmaður benti réttilega á, koma næstu pakkar sem eiga að stuðla (Forseti hringir.) að því að Evrópusambandið keyri meira, ef maður getur orðað það þannig, á endurnýjanlegri orku, (Forseti hringir.) sem er vart til innan Evrópusambandsins. Hvar á þá að ná í hana? Þá þarf að seilast eitthvað út fyrir landamærin.