149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:28]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni kærlega fyrir andsvarið. Já, það er eitthvert plan sem við erum ekki alveg upplýst um. Ég hnaut um grein í dag þar sem gefið var í skyn að skortverð sé meginhugsun framkvæmdastjórnar ESB. Þess vegna er þeim í mun jafnvel að halda Bretlandi inni til að auka þessi áhrif. Segjum að skortverð sé meginhugsunin og það þýðir þá að raforkuverð mun hækka. Evrópusambandið vill gjarnan vera eins stórt og mögulegt er til þess að vera með stór raforkusvæði þannig að þeir geti nýtt sér yfirburðastöðu gagnvart löndum eins og Noregi og Íslandi.

Ég spyr hv. þingmann hvort hann geti ekki skilið hvers vegna ég velti þessu upp: Hvað er það sem kveikir á þessu öllu saman sem snýr að Bretlandi og Brexit?