149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:34]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar og í grunninn er ég honum algjörlega sammála. Þetta mál er svo stórt að það ætti í sjálfu sér ekki að vera bundið af flokkslínum. Auðvitað skilur maður að það eru flokkar á þingi sem vilja fara í náðarfaðm Evrópusambandsins með allt sem hér er, og ég ber virðingu fyrir því sjónarmiði þó að ég sé því algerlega ósammála. Það er alla vega heiðarlegt að koma þannig fram. En flokkar sem segjast vilja tryggja sjálfstæði og sjálfræði Íslands en koma fram eins og ríkisstjórnarflokkarnir hafa gert, í blóra við kjósendur sína og fylgismenn, það er kannski svolítið alvarlegra mál. Eins og ég sagði í ræðu minni er það eitthvað sem maður hefði ekki trúað að maður myndi standa frammi fyrir. Og þegar við fáum, eins og við höfum fengið Miðflokksfólkið, fullt af sendingum, skeytasendingum, frá fólki sem er hálförvilnað yfir þessu, þ.e. stuðningsfólk þessara ríkisstjórnarflokka, þá skilur maður enn síður þennan einbeitta vilja til að innleiða hér gerð sem engin leið er út úr að henni samþykktri. Það er engin leið til baka nema þá að segja upp EES-samningnum í heild. Það er ekki það sem við höfum rætt hér að okkur langi til að gera, alls ekki.

Við höfum hins vegar lagt á það áherslu, og það kom reyndar fram í þessari greinargerð sem ég las stuttlega upp úr í ræðunni minni áðan, að það er réttur okkar Íslendinga að ganga að þessum EES-samningi eins og hann er lagður upp, að ganga að honum öllum, að nýta allar hans greinar. Þar eru ákvæði um að senda ákvörðun eins og þessa (Forseti hringir.) til sameiginlegu nefndarinnar sem ekki virðist vera kjarkur til að gera af hálfu þeirra sem nú fara með stjórn í landinu. Og það er mjög alvarlegt mál.