149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:36]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Segja upp EES-samningnum, sagði hv. þingmaður. Hér hefur ekki nokkur maður minnst á það utan einn og það er hæstv. utanríkisráðherra, sem ég sakna mjög úr umræðunni um þetta mál. Hann taldi sig þess umkominn að brigsla öðrum þingmönnum um fjarveru úr þingsal jafnvel þótt þeir væru í störfum fyrir þingið erlendis, en hann taldi það þrautavara við beltið og axlaböndin að segja upp samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Það er hárrétt, sem hv. þingmaður benti á, allar þær greinar í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið sem farið hefur verið yfir í ræðum fjalla um sátt og að tala einu máli sama hvað tautar og raular. Er ekki svolítið skrýtið að við stöndum hér nú og (Forseti hringir.) það eigi að troða ofan í kokið á okkur þeim rökum að eina (Forseti hringir.) og rétta leiðin sé að fara ekki eftir samningum? Á sama tíma er okkur brigslað um að vilja grafa undan (Forseti hringir.) samstarfinu um Evrópska efnahagssvæðið.

(Forseti (GBr): Forseti áréttar við hv. þingmenn að þeir virði tímamörk eins og þau eru kynnt.)