149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:47]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður kom í andsvari sínu aðeins inn á atriði sem ég ætlaði að fjalla um í framhaldsræðu minni um norsku tenginguna, það er að staðan hjá Norðmönnum er sú að þeir eru í algerlega í lausu lofti með þessa fyrirvara. Þeir hafa, eins og hv. þingmaður bendir á, ekki verið færðir þar í lög og engin svör hafa borist frá Evrópusambandinu. Það er líka þekkt staðreynd að innan norska embættismannakerfisins og raunar jafnvel þingsins líka er mikill stuðningur við aðild landsins að Evrópusambandinu og það þrátt fyrir að yfirgnæfandi hluti Norðmanna sé því alfarið andvígur. Raunar held ég að það sé hærra hlutfall en á Íslandi jafnvel sem er andvígt aðild að Evrópusambandinu.

Það sem maður óttast er að tengslin í alþjóðaembættismannakerfinu hafi fundið það út að hættulegt sé að vísa málinu aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar vegna þess að með því móti geti Norðmenn líka varið sinn rétt og farið fram á þá fyrirvara sem norskir þingmenn og norskur almenningur telja svo mikilvægt að fá. Þess vegna keyri menn þetta mál svona áfram. Það sé ekki bara vegna þess að þeir vilji ekki að Ísland fari með málið fyrir sameiginlegu EES-nefndina, heldur vegna þess að þegar það gerist þá um leið fá Norðmenn tækifæri til að huga að sínum hagsmunum og fara fram á raunverulegar undanþágur. Þá er planið um að keyra í gegn þriðja orkupakkann til að vísa veginn fyrir þann fjórða í raun fallið um sjálft sig. Vegna þess að þá öðlast þessir fyrirvarar Norðmanna raunverulegt gildi og það setur svo sannarlega strik í reikninginn hvað varðar framhaldið miðað við það sem við höfum heyrt af þessum fjórða orkupakka.