149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:52]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir ræðuna. Hann minntist í ræðu sinni á þá lagalegu fyrirvara sem Norðmenn hafa gert við innleiðingu þriðja orkupakkans og bréfið sem hafði verið skrifað og sent til Evrópu en ekki verið svarað 14 mánuðum eftir að bréfið var sent. Ég hygg að samgöngur séu í ágætu lagi á milli Noregs og annarra hluta Evrópu og bréfið ætti að hafa borist. Þetta er ekki samgöngum að kenna. Líklegra er að bréfið hafi verið sett í stóra fælinn eða í stóru möppuna, jafnvel bara í pappírstætarann, og ætti ekki að taka til skoðunar. Ég held að við ættum ekkert að undrast þótt svo væri vegna þess að svona bréf eiga akkúrat ekkert erindi við sameiginlegu EES-nefndina, eða Evrópusambandið ef því er að skipta, nema það sé tekið upp á vettvangi nefndarinnar og að þar sé talað einum rómi. Í 93. gr. laganna um Evrópska efnahagssvæðið stendur alveg skýrum stöfum að sameiginlega EES-nefndin sé skipuð fulltrúum samningsaðila. Svo segir, með leyfi forseta:

„Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar skulu teknar með samkomulagi milli bandalagsins annars vegar og EFTA-ríkjanna, sem mæla einum rómi, hins vegar.“

Það þýðir einfaldlega að við sendum ekki svona heimatilbúið efni á bréfformi og ætlumst til þess að tillit sé tekið til þess. Hins vegar er áhugavert að hér heima er haldið áfram og bætt í og sagt að við höfum fengið í síðustu viku senda yfirlýsingu sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem vilyrði er fyrir því að við getum haft inni þessa fyrirvara okkar (Forseti hringir.) og að það sé ígildi samnings. Hvað finnst hv. þingmanni um það?