149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:54]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi þetta síðasta hvet ég hv. þingmann til að skoða orðalag þeirrar tilkynningar sem segir í rauninni ekki neitt annað en að viðurkenna að Ísland sé eyja og ekki tengd með sæstreng nú þegar. Sú áminning sem barst frá hv. þingmanni í andsvarinu er einmitt eitt af skýrari dæmunum um gagnsemi og mikilvægi þess að ræða þetta mál í þinginu. Þarna hefur hv. þingmaður dregið fram ákveðið grundvallaratriði, og ekki bara grundvallaratriði í þessu máli heldur líka grundvallaratriði sem stangast algjörlega á við það sem stjórnvöld hafa haldið að okkur í þinginu og almenningi á Íslandi.

Staðreyndin er nefnilega, eins og hv. þingmaður lýsir, að ekki er gert ráð fyrir svona vinnubrögðum, því að menn tilkynni í greinargerð, eða jafnvel ekki, eins og Norðmennirnir með þó lagalegum fyrirvörum, sína eigin túlkun eða fyrirvara á EES-samningnum, heldur þarf slíkt að gerast eftir formlegum leiðum í samræmi við það sem kemur fram í samningnum á þar til gerðum fundum.

Það er mjög áhugavert að skoða þessa átta fyrirvara Norðmanna. Þó að við bendum á að það sé líklega lítið hald í þeim er samt samanburðurinn við íslensku fyrirvarana dálítið sláandi. Þetta er miklu ítarlegra, gerir miklu betur grein fyrir því hvar Norðmenn telja að sínum hagsmunum sé hugsanlega ógnað, aftur vegna þriðja orkupakkans, og hvar þeir telji sig þurfa fyrirvara en íslenska leiðin í þessu tilviki var sú að skrifa eitthvað um að menn ætluðu að líta svo á að þetta hefði ekkert mikið að segja á meðan Ísland væri ekki tengt með sæstreng.