149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:03]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það er einmitt eitt af því sem ég hef verið að reyna að draga fram í ræðum mínum að hluta til í morgun og að hluta til mjög snemma í morgun, það er þessi útbreiddi ótti sem virðist vera í stjórnarliðinu á Íslandi um vantrú þeirra á EES-samningnum. Það er engu líkara en að forystumenn ríkisstjórnarinnar treysti ekki EES-samningnum og þess vegna þori þeir ekki að fara hina sjálfsögðu leið um að vísa þessu máli sem við erum með núna eða hluta þess til sameiginlegu EES-nefndarinnar eins og ráð er fyrir gert í samningnum sjálfum.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann út í þennan ótta við að standa á rétti Íslands, hvort hann sé mér sammála um þennan svokallaða hræðsluáróður sem er búið að halda fram að við stundum, en síðan eru menn (Forseti hringir.) logandi hræddir sjálfir við það að ganga fram eftir því sem samningurinn segir?