149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:11]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Þingmaðurinn fór ágætlega yfir þau plön sem Landsvirkjun virðist hafa varðandi mögulegan útflutning á raforku. Við höfum heyrt hér í þessum ræðustól, og líklega lesið í fréttum eða í tilkynningum, að Ísland sé ekki lengur á listum Evrópusambandsins um sæstreng. Sá er hér stendur þekkir það af eigin raun að það getur tekið töluverðan tíma að fá Evrópusambandið til að taka svona lista í gegn og hreinsa. Ég velti því fyrir mér hvort það sé ekki einfaldlega þannig að skipunin um að taka Ísland af listanum sé ekki komin alla leið niður pípurnar.

En það er ekki stóra málið. Spurningin sem ég velti fyrir mér hér er að hv. þingmaður ræddi, eins og ég skildi það, að reglur Evrópusambandsins, sem það mun setja og ACER fylgja eftir, muni ganga framar íslenskum lögum og reglum.

Hv. þingmaður nefndi fyrr í kvöld skýrslu um Noreg og fjórða orkupakkann. Í ágætri úttekt Bændablaðsins og þýðingu upp úr þessari skýrslu segir að innflutningur og útflutningur raforku megi ekki vera takmarkaður af innlendum þáttum. Er það þá þannig, varðandi þær áhyggjur sem hv. þingmaður lýsti hér af íslenskum reglum og lögum versus það sem Evrópusambandið vill sjá, að þessi setning varðandi fjórða orkupakkann sé mögulega staðfesting á því að svo verði litið á að ekki megi takmarka aðgang að markaðnum með innlendum hindrunum?