149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:14]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir andsvarið. Segjum að strengurinn sé ekki enn á lista — þá eru menn alls ekkert að flýta sér að taka hann af lista, þá má bara segja það þannig.

Það er alveg ljóst að mínu viti að ACER mun ganga framar íslenskum reglum og lögum ef því er að skipta. Það er svolítið svakaleg mynd sem birtist okkur í þessari kolsvörtu skýrslu, eins og nefnt var í Bændablaðinu, vegna orkupakka fjögur. Nú erum við með okkar Landsvirkjun í eigu ríkisins, og gefum okkur að sveitarfélög séu með eitthvað á sinni hendi, þá er okkur sagt, alla vega í þessari grein sem er túlkun á þessari skýrslu, að það muni ekki skipta máli ef ACER hefur þá skoðun að okkar hreinu orku þurfi að nýta til einhverra hluta í Evrópusambandinu.

Við munum ekki geta sett upp þessar hindranir og þess vegna bendum við enn og aftur á að senda eigi orkupakka þrjú til sameiginlegu EES-nefndarinnar þannig að við getum fengið það algerlega skýrt og skorinort hver staða okkar verður.