149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:15]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ef skilningur okkar er réttur, þ.e. að við innleiðingu þeirra gerða sem við erum að innleiða séum við með beinum eða óbeinum hætti að hleypa þessari eftirlitsstofnun, ACER — sem enn er í þróun og mótun, svo að það sé nú tekið fram — inn á okkar orkumarkað, er þá ekki þeim mun mikilvægara að sjá hver næstu skref verða varðandi þróun þeirrar stofnunar og þeirra verkefna sem stendur til að fela henni eða hvernig stendur til að breyta henni í framtíðinni?

Nú kann einhver að segja að við vitum ekkert um framtíðina. Það er rangt í þessu tilviki. Við vitum að fjórði pakkinn liggur fyrir. Þó að hann sé í formlegu ferli liggur hann fyrir og virðist vera kominn einhvers staðar í hús á Íslandi þar sem verið er að skoða hann þó að við höfum ekki fengið að sjá hann. Þá veltir maður fyrir sé hvort ekki sé mikilvægt að staldra við og segja: Bíddu, erum við með þessu að opna fyrir enn frekara framsal út af því að fjórði orkupakkinn mun breyta og innleiða enn harðari lög sem við þurfum að fylgja eftir hér á Íslandi varðandi þessa stofnun?

Hv. þingmaður, það er líka spurning sem við þurfum að spyrja okkur: Viljum við endilega taka þátt í frekari framþróun á sameiginlegu raforkukerfi Evrópu? Er ekki allt í lagi að viðurkenna að það hafi hreinlega verið mistök af okkur að innleiða orkupakka tvö á sínum tíma, eða aðra orkutilskipunina, og segja að við getum ekki haldið áfram og verðum þess vegna að fá varanlegar undanþágur frá framhaldinu? Við munum ekki bakka, við munum standa við það sem við höfum gert fram að þessu en við getum hins vegar ekki haldið svona áfram.