149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:24]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og í svari hv. þingmanns notaði hún orðalagið óvéfengjanlega fyrirvara. Mig langar til að lesa upp, með leyfi forseta, svar Jóns Baldvins Hannibalssonar við einni af þeim fjórum spurningum sem hann lagði til grundvallar í umsögn sinni sem send var inn til nefndarinnar í umfjöllun um þetta mál. Spurningin hljóðar svo:

„Mun höfnun á lögleiðingu 3. orkupakkans hér á landi setja EES-samninginn í uppnám?“

Hann svarar sjálfur:

„Svarið við þessari spurningu er ótvírætt: Nei.

EES-samningurinn tryggir aðildarríkjunum óvéfengjanlegan rétt til að hafna innleiðingu löggjafar á tilteknu málasviði, ef hún á ekki við eða þjónar ekki hagsmunum viðkomandi ríkis. Fyrir þessu eru mörg fordæmi. Höfnun innleiðingar hefur ekki í för með sér nein viðurlög. Afleiðingin er sú, að málinu er vísað til sameiginlegu EES-nefndarinnar, þar sem samið er um málið. Þar með fást þeir einu fyrirvarar, sem öruggt hald er í.“

Sem segir okkur það, eins og hv. þingmaður sagði, að maður eins og Jón Baldvin Hannibalsson, sem þekkir mjög vel til og sennilega betur en margir og flestir hér á landi, gefur okkur leiðbeiningar um það hvernig best sé að standa að málum. Er ekki eitthvað öfugsnúið við það að hér sé barist um á hæl og hnakka og allt gert til að gera öfugt við það sem okkur eldri og reyndari menn leggja til?