149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:29]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M):

Hæstv. forseti. Ég ætla að halda áfram þar sem frá var horfið í fyrri ræðu minni í kvöld. Þar gerði ég að umtalsefni blaðagrein eftir fréttaritarann Dave Keating sem hann ritaði fyrir Forbes og fjallar um blaðamannafund þar sem orkumálastjóri Evrópusambandsins fór mikinn, sá sami orkumálastjóri og hefur átt fundi með hæstv. utanríkisráðherra Íslands.

Ég ætla að þýða þessa grein lauslega héðan úr pontu, þar sem hún er á ensku, en ég var búinn að fara yfir hluta af henni hér. Hún fjallar um það, fyrri parturinn af henni, að nú hafi Evrópusambandið í fyrsta sinn stigið yfir rauða línu, stigið yfir strikið, þar sem farið er fram á að orkubandalag sambandsins verði gert, hvað eigum við að segja, heildstæðara og að ótengd kerfi innan sambandsins verði tengd við ákvörðun Evrópusambandsins.

Hann talar um að gríðarlega mikil völd hafi flætt til Brussel síðustu tvo áratugi en það séu ákveðnir hlutir sem hafi ekki flætt og það sé óásættanlegt. Það séu „diplomacy“, upp á enska tungu, með leyfi forseta, eða samningagerð, varnarmál, heilsugæsla, menntun, orka og skattar. Síðan er vikið sérstaklega að þessum tveimur síðustu efnisatriðum, þ.e. orku og sköttum, og orkumálastjóri Evrópu gerir alvarlega athugasemd við að einróma samþykki allra Evrópuríkja þurfi til að breyta orku- og skattareglum sambandsins. Hann vill setja fram ályktun eða tillögu sem gerir ráð fyrir að slík lausn myndi færast yfir í meirihlutakosningu sem tæki tillit til atkvæðavægis sem byggist á fólksfjölda. Það myndi þá verða þannig að ríki sem væri skilgreint innan þessa svæðis og hefði marga íbúa myndi alltaf trompa ríki sem hefði færri íbúa. Hann gerir sérstaka athugasemd í þessari grein við Pólland sem hafi raunverulega þvælst fyrir, þ.e. að aðlögunin sem krefur um þessa skilyrðislausu samþykkt eða „unanimity“, eins og það heitir upp á enska tungu, er nú stöðvuð af Póllandi. Það er eitthvað sem menn sætta sig ekki við þarna niðri í Evrópu. Þetta er smáinnsýn inn í það sem koma skal í fimmta orkupakkanum sem nú er í smíðum. Hann kallar þetta kerfi sem við, innan okkar ríkis, köllum lýðræði — og að einróma samþykkt allra ríkjanna skuli þurfa fyrir því að breyta þessum reglum — fornaldarkerfi.

Hann segir orðrétt upp á enska tungu:

„We can’t have the most ambitious framework to develop an energy union, and at the same time have a palaeolithic energy taxation system“ — „he fumed,“ ritar fréttaritari.

Þetta þýðir: Við getum ekki verið með metnaðarfyllstu umgjörð um þróun orkubandalags í heiminum en á sama tíma haft fornaldarskattkerfi. Með öðrum orðum: Nú er Evrópa farin að kalla á það, eftir að vera búin að moka um 5 milljörðum evra inn í þetta kerfi til að að hamla jarðefnaeldsneytisnotkun og skipta yfir í endurnýjanlega hreina orku, að komast í skattkerfið og fá til baka. Við getum velt því fyrir okkur hvers sé að vænta þar fyrir okkur Íslendinga.