149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:34]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Ég velti fyrir mér hvort það sé ekki örugglega þannig að þetta sé hinn sami orkumálastjóri og sagði Íslendinga ekki þurfa að hafa áhyggjur, af því að það væri alveg sameiginlegur skilningur á sérstöðu Íslands. Maður veltir fyrir sér hvort einhver önnur ríki Evrópu hafi talið sig hafa einhvers konar sérstöðu fyrir nokkrum árum þegar þetta sameiginlega markaðstal byrjaði. Hvort einhver ríki hafi talið að þetta myndi aldrei eiga við þau af því að þau væru svona og svona samsett og lega þeirra o.s.frv. Þróunin hefur hins vegar verið önnur.

Það er mjög áhugavert sem hv. þingmaður bendir á að stjórarnir í Brussel telji mjög mikilvægt að horfa til þess hvernig skattar spila með orkumarkaðnum í rauninni. Væntanlega eru þeir þá að horfa til þess að jafna út orkuverð með einhverjum hætti, jafnvel í gegnum skatta eða þá að verið sé að horfa til þess að niðurgreiðsla á orku verði jöfnuð út með einhverjum hætti.

Vitað er að mörg ríki, Pólland er ágætisdæmi um það þar sem mjög miklar niðurgreiðslur eru til heimila og fyrirtækja, t.d. á kolum og hefur það verið þyrnir í augum Evrópusambandsins um langa tíð. Maður má reikna með því að þarna sé orkumálastjórinn að vísa til þess að ef menn ætla að ná árangri í orkumálum og loftslagsmálum í Evrópu þá verði að berjast gegn þessu. Þar vill hann gjarnan nota skattkerfið. Erum við þá ekki í rauninni hér í dag, þegar við erum að innleiða sameiginlegar reglur á þessum markaði, við erum að innleiða ákveðið inngrip frá þessari svokölluðu ACER-stofnun, að taka skref í þá átt að tengjast þeim markaði sem orkumálastjórinn er þarna að tala um?