149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:41]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir andsvarið. Já, það er akkúrat málið að samningurinn, þ.e. bæði samningurinn innan Evrópusambandsins og síðan EES-samningurinn, eru lifandi gögn eða lifandi plagg. Það er kannski ekki gott íslenskt orð. Það er alveg rétt.

Ég tek undir það með hv. þingmanni að það er ekki óeðlilegt í ljósi stefnunnar sem bandalagið hefur sett sér að horfa til betri leiða og ekki síst í ljósi þess að bandalagið hefur varið, eins og kemur fram í þeirri blaðagrein sem ég gerði að umtalsefni, fimm milljörðum evra árlega til að vega upp á móti jarðefnaeldsneytisnotkun. Komið er inn á það að Juncker, sem er „kommissar“ í Brussel, hafi gefið það út að hann hafi náð fram að búa til orkubandalag í sinni valdatíð, en það væri enn um langan veg að fara og að hann hafi haldið þegar hann hóf þá vegferð í sinni valdatíð að það yrði seint eða aldrei jafnvel hægt að ná svo miklu fram innan hans valdatíma. En hann tekur sérstaklega fram að Evrópa horfi fram á margvíslegan vanda. En þrátt fyrir þann vanda sem Evrópa horfist í augu við nú, þá hafi þeir búið til samevrópskt orkubandalag og það hafi í raun og veru mætt lítilli andspyrnu eða mótspyrnu í Evrópuþinginu og -ráðinu. Ég held að það segi okkur að hvað sem kemur hér í framtíðinni verður á þennan veg, þ.e. við munum sjá (Forseti hringir.) Evrópska efnahagssvæðið og Evrópubandalagið færast lengra í þessa átt sem hér er lýst.