149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:49]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ákaflega hrifinn af því hvernig hv. þingmaður skoðar heildarsamhengi hlutanna út frá reynslu sögunnar. Það var gaman að heyra hann nefna frumkvöðlana í Skaftafellssýslum. Ég man eftir að hafa heyrt margar sögur af þeim snillingum sem nýttu í rauninni afgangsparta, hluti sem flestir hefðu talið rusl, til að virkja og rafvæða. Þar voru heimamenn á ferð. Og það má raunar segja líka að þegar við ferðumst yfir í stóru virkjanirnar, sem hv. þingmaður nefndi, hafi líka verið heimamenn á ferð þó að það hafi verið í stærra samhengi, það hafi verið Íslendingar að beisla þetta afl til að byggja upp atvinnu og framleiðslu á Íslandi öllu.

Það sem ég hef áhyggjur af, eitt af mörgu reyndar, varðandi þennan þriðja orkupakka og ég vil heyra álit hv. þingmanns á, er hvort með honum sé að myndast veruleg hætta á því að þessi auðlind og verðmætin sem í henni liggja færist frá heimamönnum, hvort sem það er heima í héraði eða heimamenn í skilningi þess að Íslendingar séu að byggja upp atvinnulíf hér á landi, til erlendra fyrirtækja og arðurinn fyrir vikið streymi út og atvinnusköpunin eigi sér ekki stað á Íslandi.

Nú skilst mér t.d. að Evrópusambandið sé búið að höfða samningsbrotamál gagnvart 12 ríkjum sambandsins, ef ég man rétt, vegna þess að virkjanir þar hafa ekki farið í útboð. Maður getur þá velt því fyrir sér að ef Ísland verður orðið hluti af þessum heildarmarkaði og virkjunarkostir hér skoðaðir í (Forseti hringir.) því samhengi, hvort sá arður sem hv. þingmaður lýsti og byggði upp atvinnulíf á Íslandi geti glatast.