149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:03]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar ábendingar, sem ég vil kallað svo, um djúpboranir. Það væri fróðlegt að kynna sér það betur og sjá hvað það gæti haft í för með sér. Hann minntist á að það gæti haft einhverja hættu í för með sér varðandi eldvirkni, ef ég skildi hann rétt, og það má vel vera. Ég man samt ekki eftir því að hafa heyrt að mannanna verk gætu leitt til eldsumbrota, ég er þó ekki alveg viss, en það væri gaman ef einhver gæti bent á slíkt. Ég tel að þetta sé nú kannski minni háttar áhætta.

Hann minntist einnig á að útflutningur á orku héðan gæti hækkað verð til neytenda innan lands og þá áhættu sem væri tekin með því. Jú, vissulega tek ég undir það að það gæti gerst og hefur gerst að mér skilst annars staðar.