149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:20]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það eru kannski tvær meginspurningar sem þingmaðurinn bar upp, í fyrsta lagi hvort við séum að innleiða eitthvað sem gerir að verkum að ekki væri til baka snúið, þ.e. það verði erfitt að staldra við síðar. Ég held að svo sé, já, ég held að verði af þessari innleiðingu verði enn þá erfiðara fyrir okkur að staldra við orkupakka fjögur eða það sem kemur í framtíðinni vegna þess að við erum þá áfram að innleiða og innleiða með réttum hætti og gera það að fullu í samræmi við okkar skuldbindingar án þess að fá undanþágur sem skipta einhverju máli. Já, það verður því erfiðara að segja: Heyrðu, við getum ekki haldið lengra áfram. Það er að mínu mati núna sem slíkt þarf að gerast.

Varðandi einhvers konar málamiðlun í þessu er vitanlega hið eina rétta samkvæmt ferlinu og samkvæmt samningnum að segja einfaldlega, sem væri heiðarlegt, að of mikill ágreiningur sé um þetta mál á Íslandi og því þurfi að leita annarra leiða og lausna og vísa þurfi málinu aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar. Það er hin lögformlega eðlilega leið og það er enginn neyðarréttur sem felst í því. Það er ekkert sem er skrifað inn að notist bara einu sinni á 25 ára fresti, þetta er skrifað í samninginn. Til vara held ég að það væri betra að fresta málinu og fá betri yfirsýn yfir það sem koma skal. Það kann að leiða til þess að annaðhvort verður auðveldara að samþykkja allt heila klabbið eða þá að augu opnast fyrir því að við þurfum að fá frekari undanþágur, fá skýrari frestun eða undanþágur frá heildarpökkunum, þ.e. þrjú og fjögur. Ef við höfnum þessu alfarið held ég að það fari bara í sameiginlegu EES-nefndina, ég held að það sé það sem gerist.