149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:23]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að höfnun á þessu sé ekki fær leið. Ég held að hin rétta leið sé að vísa þessu aftur til EES-nefndarinnar. Ástæðan er sú að við erum í þessu sambandi, þ.e. við erum í EES-samningnum og inn í hann eru skrifaðir ákveðnir ferlar, lög og reglur um hvernig fara eigi með mál. Ég held að það væri ekki rétt af okkur að brjóta þann samning með því að beita einhverjum ráðum sem eru ekki heimil eða leyfileg samkvæmt samningnum. Þess vegna held ég að eina rétta leiðin sé að vísa þessu til sameiginlegu EES-nefndarinnar. Við getum að vísu reynt að fresta málinu og þá fáum við skammir fyrir að vera ekki búin að þessu o.s.frv. en við erum ekki búin að hafna því að taka upp málið.

Ég hef hins vegar áhyggjur af, ég veit ekki hvernig á að orða þetta, að upplifa aftur tíma þar sem stjórnarþingmenn voru búnir að ákveða að hlutirnir væru í lagi, og fóru þangað. Það minnir mig á Icesave.