149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:29]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og tek undir það með honum að það er nauðsynlegt að hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir, sem ritaði áðurnefnda grein, svari þeim spurningum sem liggja fyrir og reyni með einhverjum hætti að leiðrétta þetta ef hægt er. Ég get ekki séð að hægt sé að leiðrétta þetta, það liggur fyrir svart á hvítu að hækkanir á raforku eru mun meiri en hækkun á neysluvísitölu, svo að dæmi sé tekið. Í greininni segir hv. þingmaður að þetta ætti að stuðla að lægra verði, að þetta sé til hagsbóta fyrir neytendur og að þetta sé neytendavernd. Ég minni á að þegar ég ræddi það sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson nefndi hér, að ég þekkti það á eigin skinni að raforkuverð til míns heimilis hækkaði verulega við innleiðingu orkupakka eitt og tvö vegna þess að ég kynti með rafmagni, kallaði hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir (Forseti hringir.) úr sal að það væri rangt. Ég held að það sé rétt að hv. þingmaður svari fyrir þetta.