149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:31]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég held að það sé mikilvægt að þingmaðurinn komi hingað og útskýri þessa grein sem hún skrifaði. Það væri líka ágætt ef hv. þm. Birgir Þórarinsson gæti farið yfir og sýnt henni rafmagnsreikningana, hvernig þeir breyttust, ef hún trúir því ekki.

Þannig er að fleiri landsmenn upplifðu sömu breytingu og hv. þm. Birgir Þórarinsson. Ég held því að eðlilegt sé að kalla eftir því að hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir komi í ræðustól og útskýri þetta fyrir okkur. Það er mjög auðvelt að henda einhverjum fullyrðingum fram í blaðagrein og þurfa svo ekki að standa við það í sölum Alþingis. Við köllum því eftir því. Ég hef einnig mikinn áhuga á því að ræða við þann þingmann og fleiri um það sem bíður okkar í orkupakka fjögur en það er svo sem nægur tími til að gera það.