149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:32]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður veltir fyrir sér orkustefnu og röð hlutanna, hvort ekki væri eðlilegt að menn mótuðu orkustefnu áður en þeir innleiddu þriðja orkupakkann — maður skyldi ætla að það væri rétt röð hlutanna. En getur ekki bara verið að menn telji sig annaðhvort ekki þurfa orkustefnu af því að hún verði bara send að utan eða óttist að samþykkja orkustefnu vegna þess að hún muni óhjákvæmilega þurfa að taka mið af hagsmunum samfélagsins og verði þar af leiðandi á skjön við þriðja orkupakkann? Getur ekki verið að þetta sé ástæðan fyrir því að hlutunum er raðað svona upp í öfugri röð?

Það er lýsandi fyrir það hve gagnlegt það hefur reynst að halda áfram að kryfja þetta mál að hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson benti á það fyrr í kvöld að hann teldi að norski stjórnlagadómstóllinn myndi kveða upp úr um það hvort innleiðing þriðja orkupakkans stæðist norsku stjórnarskrána. Nú skilst mér, virðulegur forseti, og ég geri ráð fyrir að hæstv. forseti muni taka mið af því, og að við fáum þá svigrúm til að kynna okkur málið til hlítar, að norski stjórnlagadómstóllinn eigi að taka málið fyrir þann 23. september nk. Þá veltir maður fyrir sér hvort það kunni að hafa verið ástæðan fyrir því að hæstv. utanríkisráðherra hafði boðað það, að mér skilst, að málið mætti bíða haustsins, hann hafi ætlað að líta til þess hvað kæmi út úr þessu en svo ákveðið að vera ekkert að því heldur reyna að keyra þetta í gegn áður en norski dómstóllinn kveður upp úr um það. Er þetta ekki annað dæmi um að menn séu að gera hlutina í öfugri röð?