149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:34]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, röðin er svolítið sérstök í þessu öllu. Ég held að það væri réttara að fara eftir því sem hæstv. utanríkisráðherra sagði hér fyrir nokkru, að það væri rétt að þetta mál biði haustsins. Það er alveg augljóst að verði það þannig að stjórnlagadómstóll í Noregi hafni þessari innleiðingu eða segi að farið hafi verið gegn stjórnarskránni norsku hlýtur það að hafa áhrif á alla innleiðinguna á þessum pakka í heild og þar á meðal hjá okkur. Það er eðlilegt að bíða eftir því.

Varðandi orkustefnuna er það nefnilega spurningin um hænuna eða eggið. Hvort kemur orkustefna á undan Evrópuinnleiðingunni eða eftir? Hvort mun hún taka mið af innanlandsþörf eða af þeim skuldbindingum sem við höfum tekið á okkur? Ég óttast svolítið að orkustefnan sem muni líta dagsins ljós verði mjög lituð af því að við tökumst á hendur ákveðna ábyrgð á þessum sameiginlega orkumarkaði Evrópu. Ég hef að sjálfsögðu ekkert fyrir mér í þessu, en ég óttast að svo verði, þ.e. að það muni hafa áhrif inn í orkustefnu landsins. Þá er það vitanlega okkar að bregðast við því.

Það er alveg augljóst að orkustefna Íslands sem aðila að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, hluta af hinum sameiginlega orkumarkaði, getur ekki farið neitt á skjön eða í bága við þau markmið sem þar eru. Ég skil ekki alveg hvernig það ætti að ganga upp ef svo væri. Hvernig getur orkustefna Íslands t.d. miðað að því að íslenska ríkið ætli eitt og sér að ráða 80% af orkumarkaðnum áfram, ráða verðlagningu, ráða dreifingu og öllu slíku ef það færi gegn markmiðum Evrópusamstarfsins?