149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Mig grunar að ástæðan fyrir þessum flýti, þ.e. að verið sé að hraða þessu máli núna, sé einfaldlega þrýstingur frá Noregi. Ég kannast ágætlega við það að meðan ég var í ráðherraembætti var töluvert mikill þrýstingur frá ákveðnum ráðherrum eða embættismönnum Noregs, sér í lagi viðskiptaráðherra þessa ágæta lands sem þrýsti mjög á að þetta næði allt fram að ganga. Ég verð að viðurkenna að ég man ekki eftir að utanríkisráðherrann hafi rætt þetta. En hins vegar má líka velta því fyrir sér hvaða þýðingu það hafi fyrir Noreg ef við ákveðum að fresta þessu. Ég held að það hafi í sjálfu sér ekkert stórkostlega þýðingu fyrir þá, ekki að öðru leyti en því að þetta frestast. Þrýstingurinn frá ágætum frændum okkar í Noregi hefur verið mikill um langan tíma en svo virðist sem verið sé að láta undan honum núna.