149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:45]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Það er eitt sem mig langar að spyrja hv. þingmann út í af því að ég veit að hann hefur ákveðna sýn yfir það hvernig samningar ganga fyrir sig, hvernig menn halda samninga og þess háttar: Kannast þingmaðurinn við það eða hefur hann trú á því að aðilar að samningi, líkt og í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, myndu ekki virða lög samningsins, þ.e. reglur hans? 102. gr. hefur að sjálfsögðu ákveðið hlutverk og ég spyr hvort menn hafi slíkt í samningnum án þess að gera ráð fyrir að það sé nýtt. Kannast þingmaðurinn við að einhvers staðar í samningnum sé þessi grein túlkuð sem neyðarbremsa, neyðarhemill, neyðarlúga eða hvað menn kalla þetta?

Síðan langar mig að velta því upp og spyrja hv. þingmann hvort hann kannist við að einhver lögspekingur, einhver fræðimaður sem hefur fjallað um málið, hafi lýst því yfir að ef Íslendingar innleiði þessar reglur ekki með beinum hætti, þ.e. ef einhvers konar innleiðingarskekkja er í þessu, sé öruggt að ekki verði rekið dómsmál á hendur Íslendingum. Enginn lögmaður hefur mér vitanlega sagt að sú aðferð sem hér er notuð komi í veg fyrir slíkt. Hins vegar hefur verið á það bent að slíkt gæti komið upp, þ.e. að einhver myndi leita réttar síns ef við förum ekki rétt að þessu. En spurningin sneri aðallega að þessu varðandi samninginn.