149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:47]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það eru mjög réttmætar áhyggjur sem hann kemur þarna á framfæri varðandi samninginn, hugsanleg dómsmál o.s.frv. Hvað varðar fyrsta atriðið, neyðarrétt að 102. gr. í EES-samningnum, þá er það þessi lögformlega leið til að fara með málið áfram þegar ágreiningur ríkir milli samningsaðila og annar aðilinn er ekki sáttur, þá er sú leið fær. Ef menn eru að tala hér um einhvern neyðarrétt, að þetta sé einungis notað í neyðartilfelli, væri þess náttúrlega getið í samningum. Ég held að það sé alveg klárt að ef ákvæði eru í milliríkjasamningum sem þessum sem á að nota í sérstökum neyðartilfellum þarf að geta þess sérstaklega og þá þarf að skilgreina nánar hvað í því felst, hver sá neyðarréttur er. Það fer ekkert fyrir slíku í þessum samningum þannig að ég held að það sé alveg óhætt að vísa því á bug. Ég er svolítið hissa á því að þessi álitsgjafi sem utanríkisráðherra og ráðuneytið fékk til starfa, Baudenbacher, áður dómari við EFTA-dómstólinn og núverandi sérfræðingur og verktaki á þessu sviði, skyldi hafa nefnt þetta. Það kom mér og ég veit fleirum verulega á óvart. Hann nefnir þarna ákveðinn neyðarrétt en það er hvergi að finna í þessum samningi sem segir okkur að verið er að koma ákveðnum áhyggjum og jafnvel rangfærslum á framfæri sem menn geta ekki staðfest. Menn geta ekki sett svona fram nema að hafa það 100% á hreinu og það er ekki á hreinu vegna þess að það stendur ekki í samningnum. Það er orðanna hljóðan sem gildir í þessum efnum.