149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:49]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Má færa fyrir því rök að Evrópusambandinu dytti í hug að beita samningsaðila, í þessu tilfelli Ísland, einhvers konar ógn, þvingun eða refsingu fyrir að nýta grein þessa samnings, sem er milliríkjasamningur og alþjóðlegur samningur að því leyti til að hann er milli nokkurra aðila? Er það ekki líklegt til að draga úr trúverðugleika Evrópusambandsins varðandi samningagerð yfirleitt þegar ritað er með skýrum hætti hvaða ferli tekur við ef ákveðin staða kemur upp?

Ég man ekki eftir því, í öllum mínum viðskiptum við þetta ágæta Evrópusamband, að nokkurn tímann hafi komið upp eitt einasta orð um hótun af neinu tagi, hvað sem við vorum að ræða á þeim tíma við það ágæta fólk.