149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:52]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Á sínum tíma fylgdist ég eins og aðrir með því þegar HS Orka var seld útlendingum og harmaði það mjög. Þá var það reyndar þannig að ég veit að íslenskum lífeyrissjóðum var ekki bara boðið, þeir voru eiginlega beðnir um að fjárfesta þar, sem þeir gerðu ekki fyrr en einhverjum mánuðum seinna og keyptu þá hlut í HS Orku af kanadísku eigendunum hærra verði en fyrr hafði verið. Það vill reyndar þannig til að mjög nýlega eignuðust íslenskir lífeyrissjóðir 57% í þessu fyrirtæki þannig að eignarhaldið er í sjálfu sér núna komið að meiri hluta til í íslenskar hendur, þó þannig að meðeigandi lífeyrissjóðanna er breskur vogunarsjóður, sem er hugsanlega skárri kostur en upphaflegi sjóðurinn sem vildi kaupa meiri hluta í fyrirtækinu og átti heima einhvers staðar við Persaflóa. Það skiptir svo sem ekki máli. En það sem mig langaði til að spyrja hv. þingmann um er sem sagt hinn endinn á fyrirtækinu HS Orku, þ.e. HS Veitur. Nú hefur flogið fyrir að um þessar mundir sé verið að selja það fyrirtæki einnig.

Mig langaði til að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi upplýsingar um hvort þetta séu réttar upplýsingar sem ég hef, þ.e. að HS Veitur séu nú til sölu og þá hugsanlega hverjir séu líklegir kaupendur að þeim hluta HS Veitna eða öllu fyrirtækinu sem sveitarfélög á Suðurnesjum áttu áður. Ég hafði réttara sagt vonað að þar sem t.d. Reykjanesbær virtist vera kominn fyrir vind fjárhagslega yrði ekki þörf á því að selja frekar eignir þarna suður frá. En mig langar til að biðja hv. þingmann um að varpa ljósi á þetta.