149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:57]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég kannast við að hafa séð tölu sem sagði að Kanadamennirnir sem áttu þennan ráðandi hlut í HS Orku hafi tífaldað eignarhlut sinn á þeim tíu árum sem þeir áttu fyrirtækið. Það kemur kannski heim og saman við það að ég las örugglega ekki fyrir löngu að fréttaveitan Bloomberg hefði gefið út að besta fjárfesting á vesturhveli jarðar væri í íslenskri orkuframleiðslu. Það er kannski ekki skrýtið að við heyrum af því að erlendir aðilar vilji reisa vindmyllugarða og/eða hasla sér völl í orkufyrirtækjum á Íslandi. Því spyr ég hv. þingmann hvort ekki sé rétt hjá okkur að stíga varlega til jarðar (Forseti hringir.) vegna þess að samþykkt þess orkupakka sem við erum með í höndunum núna greiðir í sjálfu sér leið að því að erlendir aðilar geti haslað sér völl og keypt hluta í orkufyrirtækjunum.