149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:58]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg hjartanlega sammála hv. þingmanni hvað það varðar að við stígum varlega til jarðar. Það er alveg ljóst að margir aðilar, fjárfestar og stór fyrirtæki úr orkugeiranum, eru mjög spenntir fyrir þessum orkupakka vegna þess að hann er að opna leið inn á mjög stórt markaðssvæði fyrir raforku, 500 milljóna manna markað. Við erum hér 350.000 þannig að auðvitað horfa þessir aðilar fram á að geta hagnast af orkusölu. Hv. þingmaður nefndi vindmyllugarða o.s.frv. sem fjárfestar hafa í deiglunni að reisa. Ástæðan fyrir því er ekki sú að selja rafmagn hér innan lands. Ég held að það sé fyrst og fremst hugsað til þess að selja það hæstbjóðendum. (Forseti hringir.) Þetta er hrein orka, verðmæt orka, og þeir selja hana inn á þetta markaðssvæði þegar sæstrengurinn er kominn.