149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:59]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Í því kemur hv. þingmaður inn á að þegar sæstrengurinn kemur verður ekki aftur snúið. Ég held að það hafi verið orðalagið sem hv. þingmaður notaði. Ég skil þá fullyrðingu sem svo að hún sé sett fram á þeim forsendum að ef slíkur strengur yrði lagður, og ég held að allir séu sammála um að ekkert ef sé um það, hann mun koma hér í framtíðinni, yrði það gert á forsendum Evrópusambandsins og EES en ekki á forsendum Íslendinga, þ.e. það verður ekki aftur snúið af því að þetta yrði gert á þeim forsendum.

Mig langar til að velta því upp hvort í framtíðinni gæti einnig falist möguleiki sem er þá sá að strengur yrði lagður til annars ríkis sem stendur utan þessa sambands, eins og t.d. Bretlands ef til þess kæmi að Bretland myndi að lokum ganga út úr Evrópusambandinu, Brexit, og að þá yrði gerður eins konar tvíhliða samningur á milli Íslands og Bretlands. Þá yrði sæstrengur sem slíkur eða a.m.k. orkuflutningurinn um hann á forræði Íslendinga og á forsendum Íslendinga. Er það eitthvað sem myndi horfa öðruvísi við en ef slíkur strengur yrði lagður á forsendum yfirþjóðlegrar stofnunar og valds sem við höfum ekki aðkomu að?