149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:06]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Fyrst langar mig til að spyrja herra forseta hvort það sé ekki alveg klárt að það sé pláss á mælendaskrá kvöldsins, að það sé nóg pláss.

(Forseti (GBr): Forseti játar því, það er nóg pláss.)

Það gleður mig vegna þess að hér steig á stokk í dag hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir og sagði þann flokk sem hér stendur og ræðir orkupakka þrjú hafa hertekið þingsalinn. Ef hv. þingmaður brennur í skinninu fyrir að koma hér og segja skoðanir sínar á orkupakkanum, og/eða þeim voðalegu mönnum og konum sem hér standa og ræða þetta stóra mál á þann hátt sem hv. þingmaður lýsti svo: innantómt, síendurtekið og hjákátlegt sjálfshól, getur hún það. Ef hv. þingmaður hefur hlustað svona vel á það sem fram hefur farið hér og ef athygli hennar hefur verið jafn mikil á því sem hér hefur farið fram í þingsalnum og þeim heimildum sem hún náði sér í þegar hún skrifaði grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag fer ég að skilja hversu hvers vegna greinin er eins og hún er.

En út af fyrir sig ætlaði ég ekki að tala um einhver smáatriði í þessari ræðu minni heldur ætlaði ég að ræða þá staðreynd að hér hefur verið haldið fram, af fleirum en þessari ágætu hv. þingkonu, að minni hluti þingsins, mikill minni hluti, sé hér alltumlykjandi, allsráðandi og sé að einoka mælendaskrá þingsins og misnota hana. Það leiðir hugann að því að fyrir örfáum dögum, 16. maí, birtist skoðanakönnun frá MMR í Bændablaðinu og hún var gerð dagana 30. apríl til 3. maí. Þar kom berlega í ljós andstaða við þessi áform ríkisstjórnarinnar, þ.e. að innleiða þriðja orkupakka Evrópusambandsins um valdaafsal í orkumálum. Þar voru 50% svarenda mjög eða frekar andvíg, 30% voru frekar eða mjög fylgjandi og 19% tóku ekki afstöðu. Í kosningu eru það hins vegar einungis þeir sem afstöðu taka sem hafa áhrif á endanlega niðurstöðu. Af þeim 81% sem tók afstöðu í könnun MMR voru 62% andvíg og 27% fylgjandi. Það vekur athygli að í hópi þeirra sem afstöðu taka eru 41% harðir í andstöðu sinni en einungis 16% harðir stuðningsmenn orkupakka þrjú.

Nú fer maður að skilja allar þær kveðjur og alla þá hvatningu sem sá hópur sem hér hefur staðið vaktina hefur fengið undanfarna daga og vikur í baráttu sinni gegn þessum sama orkupakka. Þetta verður þeim mun skiljanlegra af því að grasrótin, þ.e. hinn almenni flokksfélagi í öllum stjórnarflokkunum þremur, er að meiri hluta til á móti þessum gjörningi. Það gerir það enn undarlegra, a.m.k. í mínum augum, og maður spyr sig: Hvers vegna í ósköpunum ganga þessir þrír flokkar svona rækilega gegn grasrót sinni og almennum félögum? Ætla þessir menn ekkert að halda áfram í pólitík? Á að leggja þessa flokka niður? Ekki það að ég gráti það en ég bara spyr mig. Hvers konar bíræfni er það að halda þessu máli svona fram í þessum flýti, í þessum asa, og það er búið að benda á það í kvöld í mjög góðum ræðum hvaða áhrif þessi asi, þessi flýtir, hefur. Það er búið að benda á dæmi frá Noregi og víðar þar sem menn hafa verið í vandræðum og við erum að sigla í nákvæmlega sömu vandræðin, ef ekki verri.

Þetta er það sem ég vildi koma á framfæri, herra forseti, bæði það að þetta er í bullandi andstöðu við þjóðina og að þeir sem saka þann hóp sem hér er um að hertaka þingsalinn hafa pláss á mælendaskrá ef þeir vilja, þora og geta.