149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:12]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Auðvitað sætir það mikilli furðu að þingmenn stjórnarliðsins, eins og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir, skuli leyfa sér að halda því fram að þeir sem lýsa efasemdum um þriðja orkupakkann séu einhver lítill minni hluti í ljósi þeirrar tölfræði sem hv. þingmaður bendir á. Enn undarlegra er þegar aðrir hv. þingmenn leyfa sér að halda því fram að efasemdarmenn um þessa ráðagerð séu hallir undir einhvers konar öfgahyggju.

Ég ætla hins vegar að spyrja hv. þingmann um annað vegna þess að hann kom inn á atriði, sem hann kom reyndar inn á fyrr í kvöld, sem er þróun mála í Noregi. Fyrir mér voru það nýjar upplýsingar þegar hv. þingmaður upplýsti um það að nú stæði til að norski stjórnlagadómstóllinn tæki málið fyrir. Það segir kannski sína sögu um upplýsingagjöf stjórnarmeirihlutans og fylgitungla hans í þessu máli að slíkt grundvallaratriði komi fyrst til umræðu nú að næturlagi eftir talsverða umræðu. Um leið er það þá áminning um mikilvægi þessarar umræðu. En mér skilst að þessi dómstóll muni taka málið fyrir hinn 23. september nk. Og þá spyr ég hv. þingmann sem upplýsti um þetta hér áðan: Hvað getur valdið því að íslensk stjórnvöld ætli ekki að bíða niðurstöðu norska stjórnlagadómstólsins varðandi þetta mál heldur keyra það í gegnum þingið, helst að næturlagi, löngu áður en Norðmenn hafa kveðið upp úr um hvort það standist yfir höfuð stjórnarskrá Noregs?