149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:21]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna sem eins og vonir stóðu til var ákaflega góð og gaman að fylgjast með andsvörum hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar líka. Hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson kom inn á ræðu Bryndísar Haraldsdóttur sem haldin var í þessum ræðustól þar sem talað var um hertöku á þingsalnum og innantómt sjálfshól. Þarna hætti ég að hlusta en það var eitthvað meira sem átti sjálfsagt að vera einhverjar pólitískar keilur. Varðandi það held ég að slíkt sé ekki svaravert.

Staðreyndin er hins vegar sú að í gær, af því að nú er kominn morgunn, við erum komin fram yfir miðnætti, voru þingmenn frá þrem mismunandi flokkum að ræða þetta mál í þingsal, það er nú allt málþófið og hertakan. Úr þessum ræðustól hefur verið boðið upp á það ítrekað að ef aðrir þingmenn vilji koma í ræðustól og ræða þetta og taka umræðuna við okkur, sem við höfum sannarlega kallað eftir, eru þingmenn Miðflokksins fyrstir til að færa sig neðar á mælendaskrá og hleypa öðrum að til að geta tekið þátt í þeirri umræðu.

En mig langar til að spyrja að því sem hv. þingmaður kom aðeins inn á í ræðunni, þessum asa sem einkennir vinnubrögðin í svona risastóru máli: Hverjar geta verið mögulegar ástæður þess að hér sé hlaupið að málinu með látum í stað þess að reyna að stíga varlega til jarðar og gera þetta af skynsemi?