149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:23]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það var einmitt vegna þess arna sem ég spurði hæstv. forseta hvort það væri ekki örugglega pláss á mælendaskrá fyrir aðra, vegna þeirra orða um hertöku þingsalarins af hálfu þessara hjákátlegu sjálfshólsmanna sem hér eru.

Ég hef ítrekað velt fyrir mér þeirri spurningu og þeim spurningum hvers vegna liggi svona lífið á. Ég hef sagt það áður og hefur komið fram hér í þessum umræðum undanfarin dægur og í síðustu viku og þegar við ræddum þetta mál þar áður og hefur alltaf komið fram í hvert einasta skipti sem við tökum þetta mál til gagngerrar umræðu. Það sýnir í fyrsta lagi nauðsynina á þessari umræðu vegna þess að mér finnst í sífellu koma fram nýjar upplýsingar sem undirbyggja enn frekar þá nauðsyn sem er á því að menn ígrundi þetta mál, að menn gaumgæfi það, að menn fari varlega, eins og hv. þingmaður sagði réttilega, að menn sjái fram fyrir fæturna á sér. Og núna, í ljósi þess sem kom fram hér í kvöld og örugglega var á margra vitorði áður með norska stjórnlagadómstólinn, spyr ég aftur: Hvernig líta íslensk stjórnvöld út og íslenskir hagsmunir ef fulltrúar ríkisstjórnarinnar og landið í heild stendur eitt einhvers staðar úti í eyðimörkinni ef stjórnlagadómstóll í Noregi segir þetta í bága við norska stjórnarskrá? Ég segi bara aftur: Af hverju eru menn viljugir til að taka þá áhættu þegar við erum að tala um örfáa mánuði? Okkur liggur ekkert á í þessu máli að maður veit, nema einhverjir hagsmunir séu þarna á bak við sem okkur eru huldir en gætu þó (Forseti hringir.) komið í ljós að þessum pakka samþykktum.