149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:25]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Að maður veit, akkúrat. Af hverju er okkur haldið í myrkri? Af hverju er enginn sem tekur umræðuna við okkur? En af hverju þessi asi? var spurning mín til hv. þingmanns og mig langar til að varpa fram kenningu: Nú er þjóðhagsspáin, sem verið er að gefa út um þessar mundir, niður á við og ferðamannaiðnaðurinn sem hefur verið dráttarklárinn fyrir vagninum undanfarið á í erfiðleikum eins og er og hvort tveggja er það að hluta til á ábyrgð núverandi stjórnvalda. Getur verið að nú sjái stjórnvöld tækifæri í því að búa til nýjan spútnik? Okkur Íslendingum hefur tekist ágætlega að búa til eitthvað nýtt sem verður svona glæst eins og t.d. loðdýraeldi eða síldarvinnsla á sjöunda áratugnum. Svo urðum við fjármálaveldi og nú nýlega ferðamannastaður. Af hverju ekki orku- og fiskeldislandið, af hverju ekki að keyra svolítið harkalega á það og keyra svo verklega á það að vel verði tekið eftir og helst þannig að það fari allt til andskotans? Fyrirgefið orðbragðið, herra forseti, og við getum svo fundið upp eitthvað enn annað. Getur verið að menn séu drifnir áfram af einhverjum svona hvötum, að nú þurfi að finna nýjan dráttarklár fyrir vagninn til að halda áfram því að það er alltaf svo gaman í partíinu? Það er alltaf svo gaman í veislunni. Það má aldrei hægja á og gaumgæfa og taka skrefin þannig að maður standi. Það þarf alltaf að vera eitthvað svona í gangi á Íslandi og ég verð að segja að maður skilur ekki hver drifkrafturinn er.