149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:56]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Aldeilis ekki, en hugsanlega telja einhverjir í norsku ríkisstjórninni eða einhverjir norskir Evrópusinnaðir embættismenn að það væri verra að fletta ofan af málinu, ef svo má segja, með því að vísa því aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar. Það sem blasir við þegar maður skoðar fyrirvara norska Stórþingsins er hvað hagsmunir Íslendinga og Norðmanna liggja saman í málinu. Það er í rauninni með stökustu ólíkindum að þessir fyrirvarar Stórþingsins og sú staðreynd, eins og hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson benti á áðan, að nú væri beðið niðurstöðu norska stjórnlagadómstólsins, að þetta skuli fyrst nú vera að komast til umræðu hér í tengslum við þennan þriðja orkupakka og að íslensk stjórnvöld, að því er virðist, hafi einfaldlega viljað stinga þessum staðreyndum undir stól og forðast að þær kæmu inn í þessa umræðu, þessar staðreyndir sem þó varða hana gríðarlega miklu.